Leiðarvísir inngangur 

 

Um hvað er leiðarvísirinn? 

Leiðarvísirinn er rammi að námskeiði fyrir börn á aldrinum 12-16 ára. Á námskeiðinu er sameinuð fræðsla og samvinnuæfingar til að efla traust og gagnkvæma virðingu þátttakenda.  

Á námskeiðinu fá börnin fræðslu þar sem „stjarna“, einstaklingur sem skarar fram úr í sinni íþróttagrein, kemur og talar við börnin um mikilvægi jákvæðra samskipti þeirra á milli. Erindi mun undirbúa þjálfara og „stjörnu“ fyrir námskeið.  Á meðan á námskeiði stendur fá foreldrar fræðslu frá samtökunum Erindi um góð og jákvæð samskipti í íþróttum.  

Æfingarnar á námskeiðinu samanstanda af hópeflisleikjum, samvinnuæfingum án bolta og samvinnuæfingum með bolta.    

Markmið Leiðarvísis 

Markmiðið er að skapa liðsheild þar sem umburðarlyndi og virðing eru höfð að leiðarljósi. Þar sem iðkendur vanda samskipti sín við hvort annað og koma vel fram. Ef börnum líður vel  og upplifa sig sem hluta af hópnum, innan vallar sem utan, aukast líkurnar á að barnið haldist í íþróttinni til lengri tíma. Með þessu er verið að koma í veg fyrir útilokun og einelti.  

Hverjir geta nýtt leiðarvísirinn? 

Leiðarvísirinn getur einnig nýst á öðrum vettvangi svo sem í skólum og öðru tómstundastarfi barna.  

Þjálfara, kennara og aðrir sem vantar hugmyndir að skemmtilegum æfingum fyrir börn og unglinga.  

Margar af æfingunum er hægt að nýta fyrir yngri börn, allt frá 6 ára aldri.  

Hvaðan kemur hann? 

Hugmyndin að námskeiðinu kemur frá samtökunum antibulli.dk/ í Danmörku. En þau hafa haldið nokkur námskeið fyrir börn og unglinga með góðum árangri. Það er handboltakappinn  Mikkel Hansen sem er upphafsmaður námskeiðanna og stofnaði hann antibulli samtökin í kringum þau.   

Það voru svo fjórir nemendur í meistaranámi í Verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík, sem voru að vinna verkefni sem kæmi samfélaginu til góða, sem fengu þá hugmynd að koma sömu hugmynd af stað á Íslandi. Þau fundu fljótt samtökin Erindi sem voru á þeim tímapunkti að fara af stað með fræðslu fyrir þjálfara hjá íþróttafélögunum og því smellpassaði námskeiðið að þeirra hugmyndum.

Uppbygging námskeiðs? 

Gott er að gera ráð fyrir að námskeiðið taki að lágmarki um tvær klukkustundir. Gott væri ef „stjarnan“ sem kemur á námskeiðið tæki þátt allan tímann og gæfi sér um miðbik námskeiðs 20 mínútur til að tala við börnin um einelti og góð samskipti í íþróttum.     

 

Kær kveðja MPM nemar,

Einar Kristjánsson 

Gísli Geir Gylfason

Stefanía Helga Björnsdóttir

Þórdís Eik Friðþjófsdóttir