Kæru foreldrar

Í uppeldinu reynum við að kenna börnunum okkar góð samskipti, virðingu og vináttu svo fátt eitt sé nefnt. Margar leiðir eru til að kenna þessa þætti en sú sem líklega er áhrifamest er að vera sjálfur góð fyrirmynd. Þess vegna skiptir hegðun okkar svo miklu máli í öllu því sem við gerum.

Íþróttaiðkun barna er sem betur fer mikil enda íþróttir frábær leið til að hreyfa sig, eiga góð samskipti við jafnaldra og hafa gaman. Það er því miður samt þannig að það gleðjast ekki allir í íþróttum. Þegar samskiptin eru neikvæð og pressan og mikil geta hlutirnir farið að verða leiðinlegir. Við foreldrar berum mikla ábyrgð þarna og getum stutt félagið með mismunandi hætti. Hér eru nokkrir þættir sem skipta máli:

Taktu virkan þátt í starfi íþróttafélagsins með því að mæta á æfingar og leiki. Mundu alltaf að þú ert fyrirmynd og með því að skapa góða stemningu á hliðarlínunni hjálpar þú þjálfaranum. Það er einnig afar mikilvægt að foreldrar virði hlutverk þjálfara og dómara með því að blanda sér ekki í ákvarðanir þeirra. Við verðum að treysta þeim til að taka réttar ákvarðanir og ef við viljum koma athugasemdum áleiðis er best að gera það eftir leiki og æfingar ekki fyrir framan börnin.

Tölum jákvætt um liðið, þjálfara, dómara og félagið í heild. Við byggjum ekki upp leikgleði og ánægju hjá börnum með neikvæðni. Byggjum frekar upp jákvætt samband við alla, mætum á leiki og æfingar heilsum fólki og hvetjum á uppbyggjandi hátt. Með þessu sköpum við stemningu sem getur skiptu sköpum fyrir líðan og ánægju barnanna okkar.

Ræðum upplifanir barnsins eftir æfingu og leiki hjálpar barninu að skilja leikinn og samskiptin sem þar eiga sér stað. Með þessu hjálpar þú einnig liðinu um leið og þú bætir skilning barnsins þíns .

Byggjum upp gott samfélag þar sem fólk þekkist, heilsast og á góð samskipti innan vallar sem utan.