Kæru þjálfarar

Ábyrgð ykkar er mikil og hlutverkið stórt. Þið eruð fyrirmyndir ungra barna sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttum. Einn mikilvægasti þátturinn er að byggja upp góða liðsheild þar sem öllum líður vel og hver og einn fær að vera með á sínum forsendum. Góð liðsheild stuðlar ekki bara að betri líðan barnanna heldur eykur líkur á því að liðið spili betur saman. Traust og gagnkvæm virðing innan liðsins getur skipt sköpum í leiknum sjálfum. Virðingin þarf engu að síður að vera víðar en milli leikmanna. Virðing er mikilvægasti þátturinn í öllu starfi með börnum. Kenndu börnunum að bera virðingu fyrir hvort öðru og styrkleikum sem og veikleikum allra. Ef þjálfarinn ber virðingu fyrir börnunum fær hann hana endurgoldna. Byggja ætti alla tíma upp með jákvæðni og gleði að leiðarljósi þar sem styrkleikar allra fá að njóta sín.

Margir foreldrar fylgja börnum sínum á æfingar og leiki. Til að efla liðsheild og byggja upp góðan anda innan liðsins er tilvalið að virkja foreldrana og eiga við þá gott samstarf. Láta foreldrana vita ef samskipti innan liðsins ganga illa og grípa strax inn í ef eitthvað kemur upp. Samskiptavandi innan liðsins skiptir máli fyrir alla í liðinu og ábyrgðin er þjálfarans. Ánægt lið er líklegra til árangurs .