Nokkuð hefur borið á viðvörunum á netinu að undanförnu, þar sem fólk er varað við nýju smáforriti sem kallað er Tinder fyrir börn, en Tinder er stefnumótaforrit fyrir fullorðna.  Smáforritið sem heitir Yellow virkar alveg eins og Tinder, þar sem þú metur myndir af einstaklingum og færir til hægri eða vinstri eftir því hvort þér líkar við það  sem þú sérð eða ekki.  Ef þú færir myndina til hægri, þ.e.a.s. líkar við myndina, ertu tengdur við manneskjuna og getur farið að spjalla við hana í gegnum. 
En hvað þurfa foreldrar að vita um þetta smáforrit?  Er eitthvað að varast? 
Hér eru nokkrir punktar sem ALLIR foreldrar ættu að vita: 
 
Það eru ENGAR nothæfar einka (”privacy”) stillingar í Yellow 
Það eru engar stillingar fyrir foreldra eftirlit (Parental control) 
Yellow er bannað yngri en 18 ára, en 13 til 17 ára mega nota forritið með leyfi foreldra.  Yellow stoppar þó ekki barnið að skrá sig þó það sé bara 13 ára, né biður um staðfestingu um leyfi foreldra. 
Þú verður að leyfa Yellow að fylgjast með staðsetningu þinni, sem þýðir að appið veit alltaf hvar þú ert og finnur „vini“ sem eru nálægt. 
Yellow biður ekki um netfang við uppsetningu, eingöngu símanúmer til að senda staðfestingarkóða.  Hver sem er sem hefur snjallsíma getur búið til Yellow aðgang. 
Í notkunarskilmálum Yellow kemur fram að ef þú ert á aldrinum 13 til 17 ára og setur upp aðgang að Yellow, sértu búinn að staðfesta að þú sért með leyfi foreldra eða forráðamanns.  Börn og unglingar geta því auðveldlega sett upp aðgang án leyfi foreldra. ("If you are between 13 and 17 years old, you confirm, by using the Yellow App and creating a user profile - that you have the permission of a parent or guardian to do so") 
 
Nú þegar eru komnar myndir af hálfnöktum unglingum inn á Yellow og dæmi eru um að einstaklingar sem skráðir séu inn hvetji börn og unglinga til að birta slíkar myndir.  
 
Erindi kynnti sér Yellow notkun á Íslandi og eftir að hafa skoðað rúmlega 300 íslensk ungmenni var ljóst að hægt væri að fletta myndum af íslenskum unglingum í allan dag.  
Mjög mikill meirihluti íslenskra notenda eru stúlkur á aldrinum 13-15 ára og setja þær myndir af sér auk þess að taka fram nafn, aldur og bæjarfélag. Finna má margar myndir af íslenskum stúlkum léttklæddum og ljóst að ekki er flókið fyrir áhugasama að komast í samband við ungar íslenskar stúlkur. Drengirnir eru enn sem komið er í miklum minnihluta.  
Við hjá Erindi vörum sterklega við notkun Yellow og hvetjum foreldra til að vera vakandi fyrir þeim hættum sem svona smáforrit getur haft í för með sér, og hvetjum alla  foreldra til að ræða við börn sín um hætturnar sem notkun á Yellow getur haft í för með sér.