Nú er fyrsta heila skólaárinu, eftir að Samskiptasetur Erindis opnaði, að ljúka.  

Eftirspurn eftir ráðgjafarþjónustu Erindis hefur vaxið jafnt og þétt á skólaárinu og hefur Erindi þurft að bæta við sig ráðgjöfum til að anna eftirspurn og enn fleiri bætast í hópinn í haust. Allir ráðgjafar Erindis eru fagmenntaðir og höfum við í okkar ráðgjafahópi náms- og starfsráðgjafa, uppeldis- og menntunarfræðing, þroskaþjálfa, fjölskyldufræðinga, grunnskólakennara, uppeldisráðgjafa, lýðheilsufræðing og félagsráðgjafa. 

Á fyrri hluta ársins sinntu ráðgjafar á annan tug einstaklingsmála en seinni hluta ársins fjölgaði þeim mikið og hátt í 40 mál bættust við. Málin hafa verið af ýmsum toga, allt frá vægum samskiptavanda upp í gróft einelti, en öll eiga þau sameiginlegt að um er að ræða börn sem líður á einhvern hátt illa, og foreldra sem hafa áhyggjur af vellíðan barna sinna. 

Margir skólastjórnendur, námsráðgjafar og kennarar hafa leitað til Erindis og á skólaárinu er búið að sinna tæplega 20 svokölluðum skólamálum í rúmlega 10 skólum. Málin koma víða af af landinu, Höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Vesturlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum. Sex skólar hafa nú þegar óskað eftir þjónustu strax í upphafi næsta skólaárs og því er ljóst að þörfin er mikil.  

Þjónustuþegar hafa almennt verið ánægðir með framvindu mála og  þess má geta að stór hluti þeirra hafði samband við Erindi í kjölfar þess að hafa heyrt um þjónustuna hjá starfsfélögum, vinum og kunningjum.

Ekki eru sérstök skilyrði fyrir því að óska eftir þjónustu Erindis. Einstaklingar geta fengið þrjú ráðgjafarviðtöl án endurgjalds, en ráðgjafar Erindis gæta þess að loka ekki máli fyrr en viðunandi árangri hefur verið náð. Hægt er að fá áframhaldandi ráðgjöf gegn vægu gjaldi, sé þess óskað. 

Í haust mun Erindi bjóða upp á nýjung, opinn ráðgjafartíma á miðvikudögum frá kl. 10 til 12. Þá er hægt að koma í viðtal án þess að panta tíma. Þessir tímar gætu til dæmis gagnast sem greiningarviðtal áður en málið fer í farveg hjá ráðgjafa eða fyrir þá sem telja sig aðeins þurfa stutt samráð.

Skrifstofa Erindis er opin mánudag, miðvikudag og föstudag frá kl. 10 til 14 en símaþjónusta alla virka daga frá kl. 10 til 17. Hægt er að panta ráðgjöf í s. 517-0400, í gegnum netfang erindi@erindi.is eða vefsíðu okkar www.erindi.is. Yfir sumartímann er skrifstofa og símaþjónusta þó lokuð en hægt er að nálgast þjónustu í gegnum tölvupóst.