Almennt um fyrirkomulag starfsins

 

Þátttakendur/hóparnir: Kjarnahópur, hver með um það bil átta þátttakendum, er grunneiningin í starfinu. Í kjarnastarfinu eru tekin fyrir ýmis grundvallaratriði sem varða líðan, sjálfsmynd, hegðun, tjáningu, félagsþroska, samskipti og lífsýn. Fjallað er m.a. um tilfinningar og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Hver hópur starfar sem eining á ábyrgð leiðbeinenda/hópstjóra. Hópar, eða hluti hópa, geta unnið saman að tilteknum viðfangsefnum telji leiðbeinendur það auka gildi og árangur starfsins. Einnig er mögulegt að skipta hópum upp í minni einingar í sama tilgangi.

 

Starfið/áherslur: Í starfinu er áhersla lögð á að byggja upp jákvæða sjálfsmynd og sjálfsvirðingu þátttakenda, efla traust, samskiptafærni og trú á eigin getu í skapandi og hvetjandi samskiptum. Unnið er með tónlist, leiklist og fleiri listform, útivist og ýmis skapandi verkefni. Lögð er áhersla á að þátttakendum gefist kostur á að prófa nýja hluti, öðlast færni á nýjum sviðum, jafnel finna dulda hæfileika.

 

Starfið er ekki sett upp sem meðferðarstarf í því formi að þátttakendur séu í einstaklingsviðtölum hjá fullorðnu fólki. Starfið er byggt á hópastarfi með jafningjum þar sem leitast er við að skapa samskipta- og félagsforsendur sem efla sjálfstraust, sjálfsvirðingu og félagsfærni. Þátttakendur sem rekast illa í starfinu fá þó sérstaka liðveislu eins og kostur er.

 

Þrír aldurshópar: Hópar eru aldursskiptir og eru aldurshópar þrír: 11-13 ára, 14-16 ára og 17-18 ára. Starfið er lagað að aldurstengdum þroska og félagslegum verkefnum. 

 

Starfstími: Starfinu er áfangaskipt. Hver áfangi spannar 6 vikur. Hver hópur hittist vikulega seinni hluta dags, 90 mínútur í senn. Að loknum hverjum áfanga stendur þátttakendum til boða að halda áfram í starfinu og skrá sig í annan áfanga.

 

Uppskeruverkefni/Lokahátíð: Starfi hvers hóps lýkur með uppákomu þar sem afrakstur áfangans er kynntur eða hóparnir gera eitthvað skemmtilegt sem þeir hafa kosið sér. Þessi þáttur starfsins fer fram á laugardegi eða sunnudegi. Lögð er áhersla á þátttöku foreldra og aðstandenda. 

 

Foreldrastarf: Glætan leggur áherslu á samstarf við foreldra og þátttöku þeirra í starfinu eins og aðstæður leyfa. Markmiðið er að efla tengsl á milli foreldra/forráðamanna og starfsfólks Glætunnar og veita foreldrum sem besta innsýn í starfið, inntak þess og tilgang. Starf hvers hóps hefst með sameiginlegum fundi þátttakenda og forráðamanna þeirra. Auk þess býðst foreldrum kostur á einkaviðtölum á vegum Erindis sem greitt er fyrir sérstaklega (fyrstu þrjú viðtölin eru ókeypis). Foreldrum er auk þess velkomið að koma í heimsóknir og þátttaka þeirra, s.s. vegna sérþekkingar eða færni á tilteknum sviðum sem fellur vel að starfi Glætunnar, er vel þegin.

 

Mat á starfinu: Við upphaf hvers áfanga útfylla þátttakendur annars vegar og foreldrar/aðstandendur hins vegur sérstakt matsblað þar sem m.a. koma fram væntingar til starfsins. Við lok áfanganss útfylla hinir sömu annað matsblað þar sem lagt er mat á að hve miklu leyti starfið hefur staðið undir væntingum og hvaða breytingar hafa orðið hjá þátttakendum.