Hugmyndafræðin

  1. Lífið öðlast merkingu í samskiptum

Verkefni og starfsemi Glætunnar byggir í grundvallaratriðum á þeirri grunnhugmynd sem sótt er í félagslegar mótunarkenningar (e. social constructionism) að sú merking sem við gefum veruleikanum, lífi okkar og aðstæðum verði til í samskiptum fólks, taki stöðugt breytingum, þróist í félagslegu samhengi og verði þar með aldrei endanleg. Þannig túlkum við stöðugt og endurtúlkum þá merkingu sem við gefum veruleika okkar[1].

 

  1. Sjálfsmyndin. Það sem við erum

Sjálfsmynd okkar, þ.e. sú merking sem við leggjum í okkur sjálf um eiginleika okkar og hegðun, hver við erum, og hvers virði við erum, er eitt af því sem verður til, samkvæmt félagslegum mótunarkenningum, í samskiptum okkar við annað fólk og mótast af þeim skilaboðum sem við fáum frá þeim sem við umgöngumst mest. Myndin sem við höfum af okkur sjálfum ræðst af því félagslega umhverfi og aðstæðum sem við búum við; verður neikvæð eða jákvæð eftir atvikum. Við endurmetum og endurtúlkum hana stöðugt í ljósi samskipta við aðra[2].

Sjálfsmyndin fer að mótast strax á unga aldri. Hún spilar stórt hlutverk í lífi okkar; hefur áhrif á líðan okkar, hamingju, árangur, tengsl við aðra, líkur á afrekum og sköpunargáfuna, svo eitthvað sé nefnt. 

Fólki með sterka sjálfsmynd líður almennt vel. Það kann að meta það sem það er að gera og er stolt af því sem það gerir vel. Sterk sjálfsmynd og jákvætt mat einstaklinga á eigin hæfni á ákveðnu sviði, hvetur þá til frekri dáða og þeir virðast geta tekist á við erfiðleika á uppbyggjandi hátt og gert raunhæfar kröfur til sjálfra sín[3]. Fólki með veika sjálfsmynd líður hins vegar þannig að enginn kunni að meta það, enginn elski það né hafi trú á því sem það er að gera. Einstaklingar með veika sjálfsmynd hafa neikvætt mat á sjálfum sér, þá skortir það sjálfstraust sem þarf til að takast á við verkefni dagsins, auk þess sem veikri sjálfsmynd fylgir oft slæmt gengi í skóla og erfiðleikar í samskiptum við aðra[4].

 

Allir efast einhvern tímann um sjálfsmynd sína, sérstaklega á unglingsárunum. Við veltum því fyrir okkur hver við erum, hvernig við viljum vera og hverja við viljum umgangast. Þetta er hluti af þroskaferli hvers og eins og fullkomlega eðlilegt svo framarlega sem fólk festist ekki í neikvæðri sjálfsmynd.

 

  1. Stimplun

 

Þeir sem ekki falla í félagahópinn vegna ýmiss konar frávika sem samfélagið viðurkennir ekki fá ,,á sig orð” eru stimplaðir sem hitt og þetta, fá á sig merkimiða sem á að lýsa eiginleikum viðkomandi. Slíkir merkimiðar geta haft mikil áhrif á sjálfsmynd fólks og hegðun[5]. Sjálfsmynd fólks getur laskast vegna þeirrar smánar sem merkingarnar fela í sér og umhverfið getur haldið fast í stimplun og gert viðkomandi erfitt fyrir að losna við hana. Að mati Goffman er stimplun „ferli, sem felur það í sér að viðbrögð annarra spilla eðlilegri sjálfsmynd manna“. Stimplun hefur því veigamikil áhrif á hvernig einstaklingar upplifa sjálfa sig og hvernig umhverfið upplifir og túlkar framgöngu þeirra. Hætta er á að stimplun leiði af sér félagslega útskúfun þar sem umhverfið er gjarnt á að flokka fólk eftir því sem samfélaginu hentar. Það sitja því margir uppi með merkimiða eða stimplun sem samfélagið hefur ákveðið og þeir eiga erfitt með að losa sig undan.

 

 

Sterk og jákvæð sjálfsmynd er lykill að góðri og gæfuríkri framtíð.

Þess vegna er sjálfsmyndin kjarninn í starfi Glætunnar.

 [1] Berger, P. og Luckmann, T. (1966). The Social Construction of Reality. A Treatise in the Sociology of Knowlege. Harmondsworth: Penguin

[2] Schwandt, T. A. (2001). Dictionary of qualitative inquiry. (2. útgáfa). London: Sage.

[3] Bandura, A. (1997). Self–efficacy: the exercise of control. New York: W. H. Freeman.

[4] Ragnhildur Bjarnadóttir. (2002). Adolescents´ perceptions of own competence – in the social context of leisure activities. Óbirt doktorsritgerð: Danmarks Pædagogiske Universitet í Kaupmannahöfn.

[5] Goffman, E. (1963). Stigma: notes on the management of spoiled identity. New York: Simon & Schuster.