Glætan
-félag áhugafólks um málefni félagslegra einangraðra barna og ungmenna


 

Félagslög
 

1. grein

Nafn félagsins er Glætan, félag áhugafólks um málefni félagslegra einangraðra barna og ungmenna. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 

2. grein

Markmið félagsins er að:

• Eiga frumkvæði að upplýstri og stefnumarkandi umræðu og samstarfi um málefni félagslega einangraðra barna og ungmenna;

• starfrækja félags- og tómstundamiðstöð fyrir börn og ungmenni sem búa við félagslega einangrun.


3. grein

Félagsmenn geta orðið allir þeir sem hafa áhuga á og styðja markmið félagsins eins og þau eru skilgreind í 2. grein. Félagsaðild verður fyrst gild þegar árgjald viðkomandi árs hefur verið greitt.


4. grein

Aðalfundur hefur æðsta vald í öllum málum félagsins. Hann skal halda í janúar annað hvert ár (fyrst árið 2016) og skal til hans boðað með sannanlegum hætti með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir sem eru á félagaskrá 31. desember síðasta starfsárs og eru skuldlausir við félagið við upphaf aðalfundar, sbr. 3. grein.

 

Breytingar á lögum félagsins má aðeins gera á aðalfundi. Hið sama á við um tillögu um að leggja félagið niður og tillögu um að leggja félags- og tómstundamiðstöð niður. Tillögur þessa efnis skulu sendar með fundarboði aðalfundar og öðlast því aðeins gildi að þær hljóti a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða. Verði félagið lagt niður skal sami aðalfundur ákveða hvernig skuli farið með eignir þess og skjöl.


Dagskrá aðalfundar skal vera:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Skýrsla stjórnar.

3. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.

4. Umræða og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og ársreikninga.

5. Lagabreytingar.

6. Kosning þriggja manna stjórnar til tveggja ára (formanns, ritara og gjaldkera). Stjórnin ákveður sjálf verkaskiptingu.

7. Kosning tveggja skoðunarmanna ársreikninga.

8. Ákvörðun árgjalds. Árgjaldi skal varið til eflingar félags- og tómstundamiðstöðvar eða annarra verkefna sem aðalfundur ákveður.

9. Önnur mál.


5. grein

Félagsfundi skal halda ef þriðjungur félagsmanna krefst þess skriflega eða stjórn telur þess þörf. Félagsfundi skal boða á sama hátt og aðalfundi. Sérhver fundur félagsins er löglegur ef sannanlega er til hans boðað.


6. grein

Stjórn félagsins fer með ákvörðunarvald félagsins milli aðalfunda. Stjórnin skal vinna að því að koma stefnumálum félagsins á framfæri og standa að og styrkja starfsgrundvöll félags- og tómstundamiðstöðvar fyrir félagslega einangruð börn og ungmenni.


7. grein

Lög þessi öðlast gildi á stofnfundi Glætunnar, félags áhugafólks um málefni félagslegra einangraðra barna og ungmenna sem haldinn var 5. nóvember 2014.

 

Staðfest og samþykkt á stofnfundi þann 5. nóvember 2014.