Lyklar í starfi Glætunnar

 

Einmanaleiki, félagsleg einangrun og neikvæð sjálfsmynd

Þeir sem búa við félagslega einangrun, útskúfun eða fara stöðugt á mis við jákvæð félagsleg samskipti, virðingu og viðurkenningu, s.s. vegna eineltis eða skorts á félagsfærni, fá smám saman þá mynd af sér að þeir séu ómögulegir og ekki þess virði að eiga samskipti við.

 

Þeir sem lagðir eru í einelti eða hafa skerta félagsfærni hafa yfir langan tíma heyrt neikvæðar athugasemdir í sinn garð og upplifa að vera hafnað af öðrum. Einelti getur haft langvarandi áhrif á sjálfsmynd barna og unglinga og neikvæð áhrif þess geta varað áfram þrátt fyrir að aðstæður hafi breyst og eineltið sé löngu hætt[1]. Þolendur eineltis hafa neikvæðari hugsanir um sjálfa sig en þau börn sem ekki hafa orðið fyrir einelti. Þessar neikvæðu hugsanir brjóta niður sjálfsmyndina og geta sett varanlegt mark á líf viðkomandi. Það sama á við um félagslega einangrun almennt.

 

Þessari neikvæðu merkingu, neikvæðu sjálfsmynd, viljum við hjá Glætunni breyta með því að skapa þátttakendum umhverfi og aðstæður sem fela í sér viðurkenningu, hvatningu, hrós, jákvæða sýn á sjálfan sig og ánægju yfir árangri. Við viljum hlúa að þessum þáttum með því að vinna saman að verkefnum og finna okkur vaxa að verðleikum.

 

Félagslega einangruð börn leita ekki sjálf eftir aðstoð

Félagslega einangruð börn leita ekki sjálf eftir aðstoð. Frumkvæðið þarf að koma frá hinum fullorðnu sem eiga að gæta velferðar þeirra, s.s.. heilsugæslu, félagsmiðstöðvum, skólum og að sjálfsögðu foreldrum. Það er erfitt að ná til þeirra en við verðum að gera það. Börn sem eru félagslega einangruð hafa yfirleitt sömu sögu að segja: Þau reyna að eiga samskipti við jafnaldrana en draga sig smátt og smátt í hlé vegna endurtekinnar höfnunar, stríðni eða eineltis og gefast að lokum upp og einangra sig.

 

Glætan reiðir sig á gott samstarf og vilja þeirra sem vinna að velferð barna.

 

Að vinna saman eykur félagsfærni og sjálfstraust

Undirstaða samfélagsgerðarinnar eru hópar sökum þess hve tilvera manna er háð samskiptum og samvinnu. Menn hafa þörf fyrir að tilheyra hópi og má segja að fjölskyldan og vinahópurinn séu minnstu samfélögin sem einstaklingar tilheyra. Því meira sem einstaklingar taka þátt í ýmiss konar skipulagðri starfsemi, svo sem íþróttafélögum, fagfélögum, stjórnmálum og ýmsu öðru, styrkist félagsfærni þeirra[2]. Einstaklingar eru sífellt að tileinka sér nýjar venjur og siði og því má segja að félagsmótun eigi sér stað á meðan þeir lifa.

 

Þeir sem búa við félagslega einangrun geta orðið klaufalegir í samskiptum vegna langvarandi æfingaleysis og félagsfærni þeirra verður slök. Þeir kvíða því bókstaflega að þurfa að eiga samskipti við aðra. Sá kvíði getur haft víðtæk neikvæð áhrif, s.s. í samskiptum og gengi í námi og vinnu.

 

Sá sem er einn og einmana og hefur dregið sig í hlé frá umhverfinu fer á mis við þann mikilvæga hluta af þroskaferli okkar sem manneskju að mynda tengsl við annað fólk. Í starfi Glætunnar viljum við rjúfa félagslega einangrun, bæta félagsfærni, vinna bug á ótta við samskipti og vantraust á aðra með því að vinna saman í hópum og efla sjálfstraust og trú á eigin getu í samstarfi við jafnaldra.

 

Vinir, fótfesta í lífinu

Vinir skipta okkur miklu máli. Að eiga að annað fólk sem við getum treyst fyrir okkur sjálfum, tilfinningum okkar, hugsunum og leyndarmálum. Að eiga trúnað annarra. Þetta á ekki síst við á unglingsárunum; unglingar líta á það sem eitt það mikilvægasta í lífinu að eiga vini. Þeir sem búa við félagslega einangrun fara á mis við þennan mikilvæga þátt í lífinu og eiga það sameiginlegt að eiga mjög erfitt með að mynda vinatengsl. Þeir sem fá enga athygli og eru skildir útundan, draga sig smám saman í hlé, einangrast og missa trúna á náin tengsl við aðra.

 

Eigi maður ekki vini skortir ákveðna fótfestu í lífinu. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á vináttu og að mynda vinatengsl í starfi Glætunnar.

 

Þrá eftir viðurkenningu

Þeir sem eru félagslega einagraðir taka síður, eða ekki, þátt í tómstundum innan skóla sem utan. Þeir reyna þess í stað að skapa sér sitt eigið félagslíf og leita þess m.a. í tölvuheimum. Tölvurnar verða þeirra vinir. Þar geta börnin búið til ákveðna ímynd og eru ekki lengur einangruðu, afskiptu börnin sem þau eru í skólanum. Þar geta þau t.d. náð árangri, s.s. í tölvuleikjum, og fengið viðurkenningu annarra. Á netinu gilda hinsvegar engin lög og engar reglur. Þar er hægt að nálgast allt. Þar er allt opið sem auðveldar aðgang að börnum sem þrá athygli og viðurkenningu. Á þau mið geta t.d. kynferðisbrotamenn róið sem sitja um bráð sína í netheimum.

 

Starfsemi Glætunnar byggist á því að styrkja börn og ungmenni gagnvart þessari hættu og skapa þeim vettvang og verkefni þar sem þau öðlast viðurkenningu að verðleikum.

 [1] Boulton, J. M. og Hawker, D. S. J. 2000. Research on Peer Victimization and Psychosocial Maladjusment: A Meta-analytic Review of Cross-sectional Studies. The Journal of Child Psychology and Psychiatry and Allied Disciplines. Tölublað 4. Cambridge University.

[2] Frønes,  I. (1995). Among Peers: On the Meaning of Peers in  the Process of Socialization. Oslo:Scandinavian  University  Press.