Árni Einarsson uppeldis- og menntunarfræðingur – framkvæmdastjóri og umsjón með samskiptum, líffstíl og forvörnum

Árni er með meistarapróf í uppeldis- og menntunarfræði og hefur líka lokið kennslufræði til kennsluréttinda. Hann hefur alla sína starfsævi unnið að forvarnamálum hjá stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum með sérstaka áherslu á börn og ungmenni. Hann hefur líka verið kennari í grunnskóla og tekið virkan þátt í ýmiss konar félagsstarfi frá unga aldri og setið í stjórnum og sinnt formennsku í ýmsum æskulýðs- og félagasamtökum um árabil, bæði innlendum og erlendum. Auk þess hefur langa reynslu af sveitarstjórnarmálum og þeim fjölmörgu málaflokkum sem heyra undir þau. Undanfarin ár hefur hann verið framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna,fræðslu- og upplýsingamiðstöðvar í forvörnum og heilsueflingu.

 

Áslaug Fjóla Magnúsdóttir söngkona – umsjón með söng- og tónlist

Áslaug Fjóla er fædd á Selfossi, uppalin á Akranesi og hefur búið í Hafnarfirði síðan 1994. Í grunnskóla söng hún í barnakór en fór svo að læra söng. Hún lærði söngtækni hjá Sigurði Bragasyni söngvara í tónlistarskóla Akraness og er lærð frá Söngskólanum í Reykjavík í klassískum söng. Áslaug Fjóla hefur mikla söngreynslu í flestum söngstílum, bæði sem sóló söngkona og með öðrum. Hún hefur sungið við ýmis tækifæri, svo sem veislum, brúðkaupum, jarðarförum, á tónleikum og í sjónvarpi. Hefur einnig sungið í stúdíóum og á lög á geisladiskum. Í dag syngur hún með Gospelkór Ástjarnarkirkju og Rokkkór Íslands og ýmis sólóverkefni. Áslaug Fjóla hefur fjölbreytta og mikla reynslu í farteskinu og veit ekkert skemmtilega en að syngja, og að sögn móður hennar var hún farin að syngja áður en hún var altalandi.

 

Harpa Halldórsdóttir listmeðferðarfræðingur og grafískur hönnuður – umsjón með listsköpun             

Harpa er fædd í Reykjavík og gekk hinn hefðbundna menntaveg þar til hún lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut í Menntaskólanum í Reykjavík, árið 1997. Eftir stúdentspróf lá leiðin til Danmerkur í Kunsthojskolen í Holbæk í janúar 1998, þar sem hún lauk einni önn í listnámi. Frá Danmörku hélt hún til Barcelona til háskólanáms. Þar dvaldi hún í 15 ár við nám og störf en ákvað að halda aftur til Íslands sumarið 2013, með umfangsmikla og fjölbreytta reynslu í farteskinu. Undanfarin tvö ár hefur hún unnið hjá Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna sem listmeðferðarfræðingur.

 

Torfi Már Jónsson háskólanemi í sálarfræði – umsjón með hljóð- og myndvinnslu

Torfi  fæddist í Reykjavík en ólst upp að mestu leyti í Svíþjóð þar sem foreldrar hans stunduðu nám. Hóf grunnskólagöngu í Svíþjóð en lauk henni á Íslandi árið 2006. Árið 2010 lauk hann stúdentsprófi frá Flensborg í Hafnarfirði. Eftir stúdentspróf fór hann að vinna sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla í Hafnarfirði og hefur undanfarin ár unnið sem stuðningsfulltrúi á sambýli og þjónustuíbúðarkjarna í Hafnarfirði. Torfi lauk hljóðupptöku- og Pro-Tools námskeiði á vegum Stúdíó Sýrlands árið 2011 og sama ár lauk hann einnig hljómborðsnámskeiði sem var á vegum Hjartar Howser. Hann hefur unnið sem verktaki í hljóðvinnslu frá árinu 2012 og hefur fengið frábær tækifæri til að vinna með skemmtilegum og hæfileikaríkum listamönnum. Árið 2013 hóf hann B.A. nám í sálfræði við Háskólann á Akureyri sem hann stefnir á að ljúka nú í vor (2017).

 

Soffía Fransiska Rafnsdóttir Hede tónmenntakennari og músíkmeðferðarfræðingur


Soffía útskrifaðist sem tónmenntakennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1999 og er með grunn- og framhaldsskólakennararéttindi. Hún er einnig músíkmeðferðarfræðingur frá Álaborgarháskóla í Danmörku (BA 2005, Cand. Mag 2007).
Soffía hefur starfað sem tónmenntakennari og tónlistarskólakennari, með fötluðum og öldruðum. Hún starfaði í hálft ár hjá ADHD samtökunum en starfar í dag sem tónlistarkennari 2-10 ára barna og verkefnastjóri frístundarstarfs í Krikaskóla í Mofsfellsbæ, sem píanókennari í Klifinu í Garðabæ og sem músíkmeðferðarfræðingur á eigin stofu, Músíkmeðferðarstofunni.